Að klífa tinda


Þegar Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, var kjörinn Íþróttamaður ársins annað árið í röð, árið 2003, var hann spurður nokkurra spurninga í beinni útsendingu sjónvarpsstöðvanna. Ein spurninganna var á þessa leið: Hvernig líður þér í dag, Ólafur, eftir að hafa fengið þennan titill auk þess að hafa orðið Þýskalandsmeistari, Spánarmeistari, verið kjörinn besti leikmaður í þýsku úrvalsdeildinni, valinn í heimsliðið og fleira?


Ólafur svaraði einhvern veginn á þessa leið: Mér þykir einstaklega vænt um þennan titil en í raun er þetta ekki spurning um hvernig mér líður í dag, heldur hvað ég ætla að gera til að komast á næsta tind. Og til þess að mér takist það fer ég út í hvern einasta dag meðvitaður um að það eru litlu skrefin sem skila mér á þann tind sem ég vil klífa næst. Hvernig kem ég fram við konuna mína, börn og samferðamenn? Mæti ég á réttum tíma á æfingar? Legg ég meira á mig en næsti maður og hversu margar aukaæfingar tek ég? Hversu hollan mat borða ég? Hvers konar bækur les ég? Hvernig hljóða markmiðin, hversu lengi stunda ég hugleiðslu? Hvernig gef ég af mér og hversu oft hrósa ég öðrum?


Með öðrum orðum; Ólafur Stefánsson er þess meðvitaður að hin ,,daglega varurð” skilar honum á þann tind sem hann langar að klífa. Þess má geta að frá árinu 2004 hefur Ólafur hefur orðið Spánarmeistari og verið enn meiri leiðtogi í íslenska landsliðinu.


Öll erum við að klífa einhverja tinda, hvort sem þeir eru í formi stöðuhækkunar, að komast í kjörþyngd, æfa daglega, hrósa oftar, fá betri einkunnir og svo mætti lengi telja. Til þess að komast á áfangastað, þangað sem okkur dreymir um, verðum við að leggja okkur fram á hverju einasta augnabliki og temja okkur hugsunina um ,,hámarksárangur”. Það gerist ekki af sjálfu sér.


Það er aldrei of oft tíundað að; HVERT EINASTA AUGNABLIK ER SVO DÝRMÆTT. Við erum sífellt að taka ákvarðanir, stórar sem smáar (stundum ómeðvitað), sem geta skipt sköpum í lífi okkar. Og þegar okkur tekst að temja okkur að nýta augnablikið til fulls, stöndum við fyrr en varir á þeim tindi sem við sáum fyrir okkur. Þá er um að gera að njóta þess, draga djúpt andann, setja sér ný markmið og stefna enn hærra.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is