Að velja sér vini


Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að við verðum meðaltalið af þeim sem við umgöngumst. Athyglisvert! Og að tekjur okkar séu meðaltal tekna vina okkar. Þetta ætti að hvetja okkur til sjálfsskoðunar og við ættum að velta því fyrir okkur hvort vinahópur okkar sé hvetjandi eða letjandi. Erum við jákvæð vegna þess að bestu vinir okkar eru það? Og metnaðargjörn og viljum ná frábærum árangri vegna þess að við erum í þannig félagsskap? Eða höngum við hinum megin á spýtunni í tómri neikvæðni og svartsýni vegna þess að flestir í kringum okkur hafa tamið sér slíkt?

 

Flestir eiga ólíka vinahópa sem tengjast æskuárunum, íþróttaiðkun, menntaskólaárunum, vinnunni eða öðru. Fólk þroskast hvert í sína áttina og það er ekki sjálfgefið að æskuvinir séu nánir til æviloka. Bestu vinir eru ekki endilega þeir sem talast við daglega. Er mælikvarði á sanna vináttu ekki sá að geta verið aðskilin árum saman án þess að það hafi áhrif á vináttuna? Sumar mæla vináttu út frá því hversu gott er að þaga með viðkomandi.

 

Ómeðvitað sækjum við í eða ,,lendum” í félagsskap á því sviði sem hæfir metnaði okkar, áhugasviði og umhverfi. Og það er frábært að eignast ,,bestu” vini á miðjum aldri, vini sem rífa mann upp úr meðalmennskunni og hvetja til dáða. Það hlýtur að vera í mannlegu eðli að sækja í félagsskap þar sem jákvæð örvun á sér stað, frekar en niðurrif. Við löðumst að fólki sem geislar af sjálfsöryggi, er líklegt til að hrósa okkur og forvitnast um okkar hagi.

 

Hvers vegna eru vinir okkar vinir okkar? Hvað eru þeir að gefa okkur? Og hvað erum við að gefa þeim?

Því miður getum við ekki valið okkur fjölskyldu en við getum algjörlega stjórnað því hverja við umgöngumst. Við eigum að vanda valið. Öll þekkjum við það að eyða stundum tíma í félagsskap sem við vitum að er illa nýttur, jafnvel tímasóun.

Eitt það mikilvægasta í samskiptum er að hlusta á það sem er ekki sagt. Hvað er viðkomandi að segja með þögninni, augngotum, líkamsbeitingu, athöfnum? Þeir sem eru vel tengdir, búa yfir innri friði eiga auðvelt með að hlusta. Þá eiginleika má auðveldlega temja sér.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is