Bátur sem aldei lætur úr höfn


,,Ég hef komist að því að þjáning og mótlæti eru öflug tæki til uppbyggingar persónulegs þroska. Ekkert hjálpar manni jafnhratt að læra, vaxa og þroskast. Ekkert veitir manni eins mikil færi á að virkja hinn ósvikna kraft sem í manni býr. Séð með okkar mannlegu augum virðast þjáning og mótlæti vera neikvæð reynsla. En það er innistæðulaus skoðun og ranghugmynd sem byggist á hreinum ótta. Við þjáumst, sjáðu til, þegar eitthvað gerist sem við kærum okkur ekki um. Við þjáumst þegar óvænt atvik koma upp í lífinu, þegar eitthvað nýtt á sér stað. Og nýjar aðstæður af þessu tagi, hvort sem um er að ræða veikindi, missi ástvinar eða fjárhagsvandræði, þýða að við verðum að breytast og segja skilið við hið gamla og halda á vit hins ókunna. Við slíkar aðstæður er okkur ætlað að sleppa takinu á væntingum okkar og fólki finnst oft óttalegt að sleppa takinu. Við erum hrædd við að láta úr hinni öruggu höfn sem er orðin okkur svo gamalkunn. Við streitumst á móti því að þurfa að ferðast til að hinna ókunnu staða sem lífið knýr okkur til að fara á. Tilhugsunin ein og sér virðist óttaleg. Á bak við alla okkar tregðu gagnvart hinu nýja og ókunna býr ótti.


En það er ekkert að óttast. Heimurinn sem við búum í er mun vinalegri staður en við gerum okkur grein fyrir. Bátur sem aldrei lætur úr höfn mun aldrei skemmast – en bátar eru ekki gerðir til þess. Á sama hátt mun maður sem aldrei dirfist að halda á vit hinnar ókönnuðu víðáttu í eigin lífi, aldrei bíða nokkurn skaða – en fólk er ekki gert til þess. Við erum sköpuð til að þess að þroskast við að kanna framandi aðstæður á vegferð okkar um lífið. Okkar innri og vitrari maður veit þetta og lítur breytingar og erfiðleika réttum augum – sem umhyggjusaman lækni sem vill lækna hið sjúka í okkur.


Þjáningunni er ætlað að dýpka okkur. Þjáningin er hjálparhella okkar og veldur því að við kynnumst því hver við erum í raun og veru. Þjáningin brýtur okkur upp og neyðir okkur til að sleppa takinu og gefa upp á bátinn allt sem við höfum þekkt og haldið fast við, eins og lítið barn sem á fyrsta degi sínum í skólanum sem er hrætt við að sleppa hendi móður sinnar og ganga einsamalt inn í kennslustofuna sem er full af nýjum vinum og þar sem það mun læra svo marga nýja og undursamlega hluti. Hið óþekkta er þar sem ,,hið nýja” er og hið nýja er eini staðurinn í heiminum þar sem möguleikarnir bíða þín. Og sérhver manneskja er einmitt hönnuð til þess að leita á vit tækifæra og vaxtarmöguleika í eigin lífi. Okkur er öllum ætlað að verða stórfengleg.

 

Úr bókinni: Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn, eftir Robin S Sharma

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is