Dans á rósum?


Lífið er og verður krefjandi. Oft erfitt, jafnvel þreytandi og leiðinlegt. Var við öðru að búast? Stundum langar mann að fá nýjan ,,harðan disk“ og byrja lífið upp á nýtt án þess þó að missa þá reynslu sem maður hefur öðlast. Það væri hreinn barnaskapur að ætlast til að lífið var eilífur dans á rósum. Flestum þykir nóg um að burðast með sjálfan sig þegar á bjátar hvað þá þegar maki kemur í spilið og öll afkvæmin. Skuldbindingar, tilætlunarsemi, ábyrgð og svo mætti lengi telja. Það er leikur einn að vera jákvæður þegar allt leikur í lyndi en þegar á móti blæs reynir á persónuleikann. Hversu sterkur ertu? Geturðu ýtt allri neikvæðni til hliðar og einbeitt þér að því jákvæða og fallega í lífi þínu, tekið sjálfan þig í gegn.

Sjálfsvorkunn er handan við hornið þegar illa gengur og auðvelt að upplifa sig sem fórnarlamb. Slíkt er sjálfsblekking og ekki líklegt til árangurs. Hamingjan er undir okkur sjálfum komin.


Nánast á hverjum einasta degi koma upp erfið eða krefjandi augnablik í lífi okkar. Oft langar mann að kreppa hnefa og fara þrjósku leiðina í gegnum samskipti eða verkefni dagsins en auðmýkt er allt sem þarf. Einhver sagði að eftirgjöf væri mikilvægust í hjónaböndum. Maður þarf ekki alltaf að standa fast á sínu eða gera hlutina eftir eigin höfði.

Það er mikilvægt að staldra við á hverjum einasta degi og velta fyrir sér á hvaða leið maður er. Bætti ég einhverju við þroska minn í dag? Hvað gerði ég rangt og rétt? Særði ég einhvern, hrósaði ég einhverjum og svo framvegis. Lífið er stöðug áskorun og við eigum að vera þakklát fyrir að þær hindranir sem verða á vegi okkar. Án þeirra myndum við líklega fljóta hægt að feigðarósi. Það ER tilgangur með öllu sem gerist í lífi okkar því okkur er í raun ætlað stórt hlutverk.

En hver er sinnar gæfu smiður!

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is