Djúp öndun

Djúp, meðvituð öndun


Eitt það erfiðasta sem maður gerir í lífinu er að standa augliti til auglitis við sjálfan sig, viðurkenna veikleika sína og takast á við þá. Þar af leiðandi lenda margir ósjálfrátt í því að vera á stöðugum flótta undan sjálfum sér, fastir í sama farinu og kenna stundum öðrum um eigin ófarir. Margir bíða jafnvel til eilífðarnóns eftir að tækifæri lífsins banki uppá einn góðan veðurdag. Ef við gæfum okkur tíma til að staldra við, hægja ferðina, draga djúpt andann, myndum við smám saman taka eftir spennandi tækifærum allt í kringum okkur.

 

Það að leita inn á við með djúpri, meðvitaðri öndun er þroskamerki, merki þess að fólk vill kynnast sjálfu sér betur, hlusta á líkamann, skoða sálina. Það er með ólíkindum að mörg okkar skuli burðast með heilan skrokk áratugum saman án þess nokkurn tímann að grennslast fyrir um hvað hann hefur upp á að bjóða.

 

Bara það eitt að setjast í þægilegan stól á rólegum stað, kveikja á kertum, láta aftur augun og draga djúpt andann getur verið upphaf að spennandi og óvæntu ferðalagi. Það er mjög mikilvægt að þenja vel út kviðinn á innöndun, telja upp að þremur (upplifa andartak eilífðarinnar), anda síðan frá sér og draga þá kviðinn inn eins langt og hægt er og telja upp að þremur. Þessi einfalda, meðvitaða djúpöndun gerir það að verkum að við finnum hvernig það slaknar á líkamanum og við fyllumst höfgi og yfirvegun.

 

Djúp, meðvituð öndun er lykillinn að hugleiðslu sem og flestum austrænum slökunaræfingar. Þessi ,,æfing” þarf ekki að vara nema í 10-15 mínútur til að byrja með en smám saman komust við upp á lag með að sitja lengur því við uppgötvum okkur sjálf á nýjan, spennandi hátt. Efnið víkur algjörlega frá andanum og við finnum hvernig við flögrum nánast inni í okkur sjálfum, að kanna ókunna stigu. Eflaust flækjast einhverjar hugsarnir fyrir okkur og þess vegna er æskilegt að segja í hljóði við hverja öndun: MA-RA-NA-DA! Anda inn um nefið og út um munninn.

 

Ferðalag inn á við með djúpri, meðvitaðri öndun er upphaf ævintýraferðar sem gerir okkur án efa meðvitaðri um að við erum líkami, hugur og sál -- ein stórkostleg heild. Einvera og þögn tengja okkur við sköpunargleðina og óendanlega vitneskju alheimsins. Að búa yfir innri kyrrð hefur þá yndislegu kosti að við getum tekist á við áreiti og óþægindi af yfirvegun og sanngirni. Og ekkert getur raskað ró okkar. Kyrrðin og friðurinn mótar ennfremur djúpa tilfinningu fyrir góðri heilsu og ótakmarkaðri líkamlegri orku.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is