Er eitthvað týnt?


Forn-Grikkir höfðu ákveðna sögu að segja um upphaf heimsins. Þegar guðirnir höfðu skapað jörðina og manninn, dýrin, lífverur hafsins, plöntur og allt sem lífsanda dró, áttu þeir aðeins eitt eftir ógert. Að fela leyndarmál lífsins þar sem það fyndist ekki fyrr en maðurinn hefði þroskast og þróað vitund sína nægilega til að geta skilið leyndarmálið.

Guðirnir rökræddu fram og til baka um hvar væri best að fela leyndarmálið. Einn sagði: ,,Við skulum fela það uppi á hæsta fjallinu. Þar finnur maðurinn það aldrei.”

Annar sagði: ,,Við höfum skapað manninn með óseðjandi forvitni og metnað. Hann klífur að lokum hæsta fjallið.” Þriðji guðinn stakk þá upp á því að fela leyndarmál lífsins á botni dýpsta hafsins. Annar svaraði þá að bragði: ,,Við höfum skapað manninn með ótæmandi ímyndunarafl og brennandi þrá til að rannsaka veröld sína. Fyrr eða síðar kemst maðurinn niður í hyldýpi hafsins.”

Að lokum fann guð nokkur bestu lausnina: ,,Við skulum fela leyndarmál lífsins þar sem maðurinn mun síst leita, á stað sem hann finnur ekki fyrr en hann hefur gefist upp á öllum öðrum möguleikum og er loksins tilbúinn fyrir leyndarmálið.”

,,Og hvar er það nú?” spurðu hinir guðirnir hissa.

,,Það er í hjarta mannsins. Við skulum fela leyndarmálið þar.” Og þeir gerðu það.

  

Í hjartanu er lykillinn sem opnar dyr að ótakmörkuðum fjársjóð eiginleika sem ALLIR búa yfir. Rannsóknir sýna að við notum varla nema 3% af þeim möguleikum sem heilinn býður upp á. Þeir sem eru metnaðargjarnir og fylgja draumum sínum sætta sig ekki við það. Við færumst nær fjársjóðnum með því að sitja í kyrrð og draga djúpt andann, hugleiða, finna orkuna flæða um líkamann. Mörg okkar eyða ævinni í stöðugri leit að einhverju, sem við getum ekki endilega skilgreint en tengist þó hamingju, ríkidæmi, viðurkenningu, huggun, fyrirgefningu, frama og svo mætti lengi telja. Þegar líður að ævilokum gera flestir sér grein fyrir því að leitin var tímasóun. ÞAÐ VAR EKKERT TÝNT. Þess sem við leituðum var innra með okkur. Og þegar við finnum það blómstrum við frá degi til dags og njótum hvers augnabliks til hins ýtrasta.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is