Er lífið tilgangslaust?


Stundum leitar það á hugann hvers vegna maður er að standa í þessu bévítans brölti? Áhyggjur finna sér sífellt nýja leið til að smjúga inn í sálartetrið og kvelja þar hverja taug eins og nístandi tannpína. Pirrandi og niðurdrepandi. Að vissu leyti má segja að lífið sé sjálfsskaparvíti ef maður vandar sig ekki í jarðvistarbröltinu. Þótt við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því tökum við þúsundir ákvarðana á hverjum einasta degi, sumar stórvægilegar, aðrar ómerkilegar sem fela það eingöngu í sér að færa annan fótinn fram fyrir hinn, kveikja á sjónvarpinu eða sækja sér mjólkurglas.


En það eru stóru ákvarðanirnar sem koma okkur úr jafnvægi. Að hafa skuldsett sig um of, heykst á námi sem hefði gefið góða tekjumöguleika, elt drauminn sem hefur hefur ekki látið okkur í friði, ferðast um heiminn og svo mætti lengi telja.

 

Er ekki eðlilegt að þessi ófyrirlitna spurning leiti á hugann; Er lífið tilgangslaust? Jafnvel þótt ég þéni ágætlega næstu 25 árin næ ég aldrei að ljúka við að greiða niður húsnæðislánið. Ég hefði svo sem getað keypt ódýrari bíl. Hvers vegna læsti ég ekki kreditkortið niðri í skúffu fyrir löngu? Af hverju hefur hégóminn haft yfirhöndina á undanförnum árum, er ég í keppni um heimsku? Eða gleymsku?

 

Það liggur í augum uppi að það að vera í skuldafangelsi alla ævi mun eyðileggja sálina, ræna okkur hamingjunni, nísta inn að beini. En hvað er til ráða? Minnka við sig húsnæði, flytja út á land þar sem húsnæði er mun ódýrara, nýta tímann betur og bæta við sig menntun, sækja um aukavinnu, leggja harðar að sér allan sólarhringinn. Slíta sér út fyrir peninga?

 

Eflaust eru svörin jafn ólík og við erum mörg. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við okkar eigin gæfu smiðir, hvort sem okkur líka betur eða verr. Í flestum tilvikum erum við í þessum sporum vegna þess að við tókum einhverja ákvörðun, rétta eða ranga. Reyndar ráðum við ekki við óvænta kreppu, verðbólgu og tvöföldun skulda sökum gengisbreytinga, en hvað ætlum við að gera í því? Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn, gera ekki neitt og vorkenna sér, heldur gerir maður aðgerðaráætlun, setur eitthvert ferli af stað.

 

Eflaust er lífið tilgangslaust í hugum margra, einkum þeirra sem sjá sjaldan ljósið. Það er ekkert óeðlilegt við það að svona svartsýni leiti á hugann en besta svarið við því er að bretta upp ermar á öllum sviðum; andlega, líkamlega og sálarlega. Setja sér skýr markmið, vera sparsamur, njóta hvers augnabliks og hlusta á hjartað áður en stórar ákvarðanir eru teknar.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is