Heilbrigð sál í hraustum líkama


Það vita þeir sem til þekkja að líkamsrækt er ein besta leiðin til að rífa sig upp úr hversdagsleikanum og forðast þunglyndi og depurð. Það að púla og svitna, hvort sem það er í líkamsrækt, boltaíþróttum, pilates, eróbikk eða öðru, eykur ekki bara hreysti, heldur er um að ræða mikilvæga útrás fyrir líkamann og hreinsun fyrir sálina. Þegar við sinnum líkamanum sinnum við líka huganum.

   

Oft kemur upp ákveðið eirðarleysi hjá þeim sem láta af slæmum matarvenjum og ósiðum. Fólk á í vandræðum með hendurnar á sér, því langar að grípa það sem hendi er næst og það getur myndast tómarúm í lífi þess. Líkamsrækt er ein mikilvægasta lausnin og ekki síst að vera alltaf með ávexti, grænmeti, skyr, hnetur og fleira hollmeti við hendina.

Það er engin afsökun að gleyma að taka þetta til á morgnanna. Vitanlega þarf að fara rólega af stað í ræktinni, læra inn á líkamann, kanna hvað hann þolir en engu að síður skiptir miklu máli að taka vel á því og svitna. Og maður getur alltaf gert aðeins meira þótt líkaminn sé farinn að kvarta. Sú vellíðan sem skapast við að reyna vel á sig er ólýsanleg.

 

Í Laugum er ákaflega hvetjandi andrúmsloft enda eru iðkendur þar á sínum eigin forsendum, á jafnréttisgrundvelli burtséð frá stétt eða stöðu, styrkleika eða veikleika. Notaleg sturta, gufubað eða heitur pottur að lokinni æfingu er síðan rúsínan í pylsuendanum. Svo ekki sé talað um Boozt-barinn.

   

Eitt það erfiðasta við að stunda líkamsrækt er að koma sér á svæðið. Það getur þurft heilmikið átak að rífa sig upp úr sófanum, setja æfingafötin í töskuna og leggja af stað. En þegar komið er á leiðarenda og maður byrjar að reyna á sig er björninn unninn. Það er eins með líkamsrækt og að breyta mataræðinu til hins betra, þetta snýst um ákvörðun, að ætla sér að ná árangri. Gefast ekki upp. Aðalmálið er að setja æfingu inn í stundatöflu dagsins og láta hana hafa forgang fyrir fundum og óþarfa snatti.

    

Snilldin við að taka sér taki líkamlega er að hollt mataræði fylgir nánast sjálfkrafa í kjölfarið. Maður tímir ekki að borða óhollan mat samhliða æfingum. Við eigum að blása á skyndilausnir og skyndbita, drífa okkur af stað og vera meðvituð um það að góðir hlutir gerast hægt.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is