Hugarþjálfun


Körfuboltaþjálfari nokkur skipti liðinu sínu upp í þrjá hópa og lét alla leikmennina taka vítaskot. Hann mældi vítahittni hvers hóps, skráði allt hjá sér og sagðist ætla að gera tilraun með leikmönnunum til að sýna fram á mikilvægi hugarþjálfunar. Hópur 1 átti að mæta á æfingu einu sinni á dag í heilan mánuð og ekki gera neitt annað en að æfa vítaskot. Hópur 2 mátti ekki snerta körfubolta í heilan mánuð  en hópur 3 átti að sitja í þögn og með lokuð augun heima hjá sér í hálftíma á dag í heilan mánuð og fara í gegnum vítaskot í huganum.

 

Að mánuði liðnum kallaði þjálfarinn hópana þrjá í sal og mældi vítahittni þeirra að nýju. Hópur 1 bætti sig verulega enda leikmennirnir duglegir að æfa. Hóp 2 hrakaði mikið því enginn leikmanna mátti snerta bolta í mánuð en hópur 3 bætti sig jafn mikið og hópur 1.


Með þessu vildi þjálfarinn sýna leikmönnum sínum fram á að það er ekki nóg að æfa ,,líkamlega“ alla daga vikunnar ef hugur fylgir ekki máli. Og hann vildi ekki síður sýna fram á að þær ,,myndir“ sem leikmenn búa til í huganum verða að veruleika ef menn óska þess nógu mikið. Þetta er vitanlega margsannað og algjörlega vannýtt í þjálfun afreksmanna í dag.

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is