Hvað eru lífsgæði?


Sumum höfuðborgarbúum hættir til að velta sér upp úr því hvernig í ósköpunum fólk getur búið á landsbyggðinni, fjarri öllum ,,lífsgæðum“, fjarri ,,menningunni“, fjarri ,,fjörinu“, fjarri því sem sumum þykir skipta öllu máli í nútíma þjóðfélagi.

Eða kannski þjóðfélagi ofgnóttar. En hvað eru lífsgæði? Hvað skiptir fólk mestu máli? Hvernig lífi viljum við lifa? Í flestum tilvikum hefur fólk val um búsetu nema þegar ósanngjarnt verð á húsnæði heldur fólki í átthagafjötrum.

 

Þótt ég búi á höfuðborgarsvæðinu gæti ég vel hugsað mér að eiga heima á landsbyggðinni, í sveit eða litlu bæjarfélagi, hluta úr ári eða allt árið um kring. Það er fátt betra en að fá hvíld frá hraðanum og látunum á höfuðborgarsvæðinu. Svo ég tali nú ekki um að fá hvíld frá sjálfum sér!

 

Sumir telja sig ekki getað lifað daginn af án þess að sækja fjölmennt kaffihús, svitna í ræktinni, spóka sig á Laugaveginum, hafa fjölbreytt val um veitingahús eða sækja menningarviðburð. Öðrum hentar fullkomlega að hlýða á náttúruna, heyra fuglasöng, vera í faðmi fjallanna, standa í fjöru og láta hafið leika við tærnar og svo mætti lengi telja. Líklega vill einn og sami einstaklingur hafa val um öll ofangreind lífsgæði.

 

Til allrar hamingju eru engir tveir einstaklingar eins, hvorki þarfir þeirra né langanir. Sumir vilja meina að það sé fullkomin heimska að deila um smekk.

 

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja á Skagaströnd í júní, þar af í þrjár vikur með fjóra krakka.  Hvílík lífsgæði. Fámennt samfélag, enginn asi, allir kurteisir, heimilislegt andrúmsloft, kaffihús, íþróttaviðburðir, sundlaug, golfvöllur, listamiðstöð og svo mætti lengi telja, í þessu rúmlega 500 manna samfélagi. Allt þorpið var leikvangur barnanna og það gerist af sjálfu sér að allir eru einhvern veginn að passa alla.

 

Það er öllum hollt að skipta um umhverfi öðru hverju í lengri eða skemmri tíma til að auka litbrigði lífsins. Það getur verið leiðigjarnt að hjakka í sömu hjólförunum dag eftir dag, ár eftir ár og neita að hlusta á þær tilfinningar sem bærast innra með manni. Við eigum að sækjast eftir því sem okkur langar að upplifa og bera virðingu fyrir ólíkum lífsgæðum. Síðast en ekki síst bera virðingu fyrir öllu fólki, án tillits til búsetu, atvinnu og útlits.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is