Hvað stjórnar þér?


Við teljum okkur vera á toppi siðmenningar. Við teljum okkur æðst spendýra. Við teljum okkur hafa fulla sjálfsstjórn. Við teljum að við séum að nálgast hámark í þroska. Margir telja sig nálgast fullkomnun. Hvílík firra. Aðeins 0,1% fólks í heiminum er uppljómað og þarfnast einskis. Við hin eltumst við skottið á okkur sjálfum.

Staðreyndin er sú að við stjórnum tíma okkur eingöngu að litlu leyti. Markaðsöflin hafa fyrir löngu náð tangarhaldi á okkur. Erum við ekki sífellt að borða mat sem er klárlega óhollur, skilur ekkert eftir nema skellihlæjandi bragðlauka sem slökktu á allri skynsemi og tóku af okkur völdin? Hversu oft liggjum við yfir sjónvarpinu og látum mata okkur af innantómu efni sem kveikir ómeðvitaða löngun í einskis nýta hluti? Sjónvarpið getur slökkt á okkur og tekið af okkur völdin þannig að við nærumst á röngum skilaboðum og teljum okkur þurfa allt annað en það sem við höfum nú þegar.

 

Ef við skoðum líf okkar og daglegt mynstur af kostgæfni fáum við eflaust sjokk yfir því hversu meðvirk við erum með markaðsöflunum. Það er sífellt verið að reyna að fá okkur til að versla af því við megum alls ekki missa af því stórkostlega sem er í boði. Ný föt, sætari matur, einstök tilboð, geggjaðir skartgripir, nýr bíll og svo mætti lengi telja.

 

Skortur endurspeglar án efa eitthvert tóm innra með okkur sem við freistumst til að fylla upp í með  einskis nýtri vöru. Og við lendum í sjálfheldu, kapphlaupi við efnishyggjuna og fyrr en varir skortir okkur sífellt meira jafnvel þótt okkur skorti ekkert, nema hugarró.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is