Morgundagurinn er í dag


Fjölmargir setja sér áramótaheit, sjálfum sér til örvunar og ætla loksins að taka sér tak. Núna er komið að skuldadögum, reyndar gleðistundum. Flestir sem strengja einhver heit ákveða að fara í ræktina, hreyfa sig meira og borða hollari mat, jafnvel hætta að reykja. Eflaust fara svona ,,heilbrigðishugsanir“ í gegnum hausinn á okkur öllum nokkrum sinnum í viku, allt árið um kring. En... einhverra hluta vegna erum við svo ótrúlega mannlega, skelfilega löt, ,,góð“ við okkur sjálf og það er svo einstaklega þægilegt að lúra aðeins lengur og liggja enn lengur yfir sjónvarpinu , jafnvel í 3-5 klukkutíma á hverju einasta kvöldi. Þá er afþreyingin við völd, ,,þreyingin“ sem skilur lítið eftir annað en slappa vöðva, og þaninn kvið þess sem horfir. Og pirrandi mannskepnu sem rís upp á miðnætti, staulast í rúmið með blótsyrði á vör um illa nýttan tíma.


Við sjálf eru mesta áskorun lífsins, í sífelldri glímu við okkur sjálf og heimsmeistarar í blekkingu. Á morgun, á morgun, á morgun. Hver kannast ekki við morgundaginn, sem kemur aldrei? Öllu heldur, morgundagurinn er í dag. Við höfum engar afsakanir.

 

Sumir óttast það að fara í ræktina, telja að allir séu að fylgjast með manni. Það er fjarri sanni. Það eru allir jafnir í ræktinni, allir á sínum eigin forsendum, flestir með ákveðin markmið og allir tilbúnir að styðja hver annan með margvíslegum hætti. Í ræktinni er gleðin við völd, við finnum að við erum á réttri leið, smám saman að sigrast á okkur sjálfum og það sem er mest um vert er að við erum að þjálfa hugann, hreinsa sálina, dusta rykið af heilabúinu sem hefur safnað ryki og verið okkur til trafala.

 

Núna er rétta augnablikið að rífa sig á lappir, jákvæður, glaður, tilbúinn að sigrast á sjálfum sér. Og njóta þess hverja einustu mínútu að örva það stórkostlega sköpunarverk sem við erum.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is