10 ráð til að festast í ræktinni


1. Finndu þér æfingafélaga sem hefur nægan tíma, einlægan áhuga á heilbrigðum lifnaðarháttum, hvetur þig til dáða og sleppir aldrei æfingum. Ef þú ert einn á báti skaltu kaupa þér einkaþjálfun í 3 mánuði til að koma þér af stað og læra réttu æfingarnar.

2. Negldu niður ákveðinn æfingatíma á hverjum degi og skrifaðu hann í dagbókina, a.mk. mánuð fram í tímann þannig að æfingin hafi alltaf forgang.

3. Farðu í allsherjar mælingu hjá lækni varðandi þyngd, kólesterol, fitu, blóðsykur og svo framvegis. Settu þér markmið í kjölfarið þannig að þú bætir þig á öllum sviðum. Í upphafi æfingatímabils skaltu líka athuga líkamsstyrk með því gera armbeygjur, kviðæfingar og fleira á tíma þannig að þú getir fylgst með framförunum. Gerðu stöðumat reglulega.

4. Haltu matardagbók ásamt æfingafélaga þínum og láttu næringarfræðing fara yfir þær eftir tvær vikur. Hvor ykkar stendur sig betur? Farið í keppni. Það hvetur til meiri framfara. Viltu þyngjast eða léttast? Hvað ertu að borða til að ná markmiðunum?

5. Segðu sem flestum að þú æfir nánast daglega og hafir sett þér markmið. Það setur aukinn þrýsting á þig og heldur þér við efnið.

6. Klipptu úr mynd af einstaklingi (líkama) sem þú vilt líkjast eftir ákveðinn tíma. Þú getur hæglega orðið að því sem þú hugsar, ef þú leggur þig allan fram.

7. Temdu þér að hafa alltaf hollmeti við hendina, t.d. ávexti, grænmeti, hnetur. Skiptu út mjólk fyrir hrísmjólk, hvítu hveiti fyrir spelt og svo framvegis. Vertu mjög gagnrýninn á      það sem þú borðar því það er ekki allt sem sýnist. Sneyddu hjá sykri og hvítu hveiti. Kynntu þér innihald matvæla og settu þér háan standard í næringu.

8. Taktu æfingafötin til á kvöldin og settu töskuna á ganginn þar sem þú getur ekki gengið framhjá henni á leiðinni út á hverjum morgni. Það eru engar afsakanir fyrir því að æfa ekki.  Njóttu þess að fara í gufu eða heitan pott að lokinni æfingu. Ekki vera alltaf á hlaupum!

9. Ef þú vilt ná 100% árangri skaltu vera með fullan fókus á æfingum. Það er ekkert mál að æfa í klukkutíma án þess að ná árangri en með einbeitingu, eljusemi og því að leggja enn meira á sig næst frábær árangur. 3-5 endurtekningar þegar þú telur þig búinn á því gera gæfumuninn.

10. Mundu að æfingaferli er ferðalag sem þú átt að njóta og gera að lífsstíl. Það er enginn endapunktur. Ef þú hefur náð markmiðum þínum, skaltu setja þér ný og gera enn meiri kröfur til sjálfs þín.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is