Að fá sem mest út úr deginum


Margir opna tölvu í upphafi vinnudags, skoða helstu fréttir, tölvupóstinn eða vinna hreinlega á tölvu.

Það er heillaráð, áður en maður hefst handa við eitthvað ofangreint, að ákveða hvernig maður vill að dagurinn verði – með því að skrifa það niður, vista skjalið og annað hvort prenta það út og/eða lesa það yfir nokkrum sinnum yfir daginn. Þetta er í raun ekkert annað en markmiðasetning því eins og við vitum stjórnum við því hvernig lífi við lifum og hvað við upplifum.

Við ákveðum okkar eigin velgengni.


Ég þekki mann á besta aldri sem hefur tamið sér þetta og árangurinn hefur ekki látið á sér standa:

  1. Dagurinn er yndislegur og mér gengur allt í haginn.

  2. Ég sé fegurð í öllu.

  3. Ég hrósa og laða að mér frábært og gefandi fólk.

  4. Ég klára verkefni A fyrir lok dags. Ég hringi í alla sem hafa með verkefni B að gera.

  5. Peningar sogast að mér.

  6. Eiginkona mín blómstrar.

  7. Börnin njóta dagsins til hins ítrasta.

  8. Ég fer í ræktina í hádeginu.

  9. Ég les 10 blaðsíður í uppáhaldsbókinni minni.

  10. Ég geri eitthvað nýtt og spennandi í dag.

  11. Ég loka augunum og hugleiði í 20 mínútur í dag.

  12. Ég lýk við öll verkefni sem eru í dagbókinni.

  13. Ég fer á kaffihús í kvöld með konunni.

  14. Ég sofna sæll og glaður og draumarnir gefa mér sýn á það sem er framundan.    

                                                                                                                                                       

Það er mikilvægt að skrifa ALLT niður sem manni dettur í hug þennan dag, því þá verða engir tveir dagar eins og þessi mikilvægi listi breytist frá degi til dags. Vitanlega er líka ákjósanlegt að skrifa niður það sem maður vill að gerist degi, mánuði eða árum síðar. Þeir sem hafa tamið sér skýra hugsun, sett sér markmið og hreinlega ákveðið að ná hámarksárangri á hverjum degi, blómstra yfirleitt umfram aðra.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is