Að halda haus
Það er ekki alltaf auðvelt að halda haus, hvorki heimafyrir né í vinnunni. Þótt rútínan geti verið frábær, börnin í skólann, tómstundir síðla dags, vinnan átta til fjögur og svo framvegis er ekki sjálfgefið að vera alltaf yfirmáta jákvæður. Við eigum öll okkar slæmu og góðu daga og þótt okkur langi eflaust oftar að vera glöð og kát er lífið ekki þannig. Á slæmum dögum getur verið sérlega pirrandi að komast í gegnum forstofuna fyrir skópörum og inn eftir ganginum vegna þess að skólatöskur liggja þvers og kruss. Enginn hafði tíma um morguninn til að ganga frá í eldhúsinu og þar sem báðir foreldrarnir voru á hlaupum yfir daginn gleymdist að versla. Og síðan voru börnin að verða of sein í tómstundir og hundurinn heimtaði að fara út að skíta. Hvenær á svo að klára heimalærdóminn? Á sama tíma og ég ætlaði að horfa á eftirlætissjónvarpsþáttinn minn?
Svona daga þekkja flestir foreldrar og margir hafa kannski upplifað hvern einasta dag í tuttugu ár sem Groundhog day, eins og Bill Murrey í bíómyndinni. Mér kemur ekki á óvart þótt sumir fríki út og mér kemur heldur ekki á óvart þótt sumir missi sig í öl og vitleysu um helgar því þannig fá þeir frí frá rútínunni, frí frá sjálfum sér og detta sumpart inn í aðra veröld. Vitanlega mæli ég ekki með því!
Lífið er og verður krefjandi. Því fyrr sem við áttum okkur á því þeim mun betur tekst okkur að takast á við hversdagsleikann. Það er mikilvægt að hlakka til eins, eiga sér drauma, setja sér markmið, stefna hærra og síðast en ekki síst, láta ekki litlu hlutina endalaust koma okkur úr jafnvægi. Það getur verið grautfúlt að vera mannlegur, eins kjánalega og það kann að hljóma. Og það að fólk fari sitthvora leiðina þegar álagið er mikið er að vissu leyti skiljanlegt, þótt það sé hugsanlega engin lausn.
Mín reynsla er sú að líkams- og heilsurækt er besta lausnin til að takast á við ofangreinda þætti. Það að púla og svitna er besta leiðin til að hreinsa hausinn. Og ef hausinn er hreinn þá tekur með síður eftir litlu hlutunum sem geta sett allt úr skorðum. Sættum okkur við það sem við getum ekki breytt og reynum eftir fremsta megni að líta björtum augum á tilveruna. Allt hefur sinn tilgang, allt hefur sinn tíma og það er ekki lagt meira á okkur en við ráðum við.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is