Að stjórna framtíðinni
Enn eitt árið er að ýta úr vör og enn gefst okkur tækifæri til að hreinsa til í sálinni, líkamanum, forgangsraða upp á nýtt. Áramótin virðast oft heppilegasti tíminn til þess! Til allrar hamingju erum við jafn ólík og við erum mörg og þar af leiðandi eru markmið okkur mismunandi. Samt öll jafn mikilvæg og merkileg. Sumir setja sér aldrei markmið en svo eru aðrir sem sjá reglulega fyrir sér það líf sem þá langar til að lifa og vinna markvisst að því það gerist. Flestir sem skara fram úr í lífinu, á hvaða vettvangi sem er, eiga það sameiginlegt að setja sér markmið, elta drauma sína, þrátt fyrir fjölmargar hindranir. Uppgjöf er ekki til.
Það er eitt að setja sér huglæg markmið, annað að skrifa þau niður en áhrifaríkast er að klippa út myndir sem minna á markmiðin. Markmið eru sett fram í 1. persónu eintölu eins og við höfum þegar náð þeim. Dagsetning skiptir miklu mál sem og ítarlegt framkvæmdaplan. Tökum dæmi af einstaklingi sem er 90 kg, borðar fremur óhollan mat en langar að missa 10 kg á árinu. Markmið hans gæti verið með þessum hætti:
Markmið:
Ég er 80 kg.
Dagsetning:
24. desember 2007
Framkvæmdaplan:
Ég æfi 5 sinnum í viku.
Ég er með ítarlegt æfingaplan frá reynslumiklum þjálfara.
Æfingar eru hluti af daglegri iðju.
Fundir eru aldrei mikilvægari en æfingar.
Ég held matardagbók og læt næringarfræðing ráðleggja mér vikulega.
Ég drekk 2 lítra af vatni á dag.
Ég borða hafragraut á morgnanna.
Ég er alltaf með ávexti og grænmeti við hendina.
Ég borða 8 litlar máltíðir á dag.
Ég borða aldrei sælgæti eða drekk gos.
Ég borða aldrei eftir klukkan átta á kvöldin.
Og til að ramma inn þetta EINA markmið finnum við mynd af einstaklingi sem lítur út eins og okkur langar að líta út. Best er að eiga eina fallega bók og fylla heila opnu með markmiði, mynd, dagsetningu og ítarlegu framkvæmdaplani. Á næstu opnu er svo annað markmið og svo koll af kolli.
Þegar við setjum okkur markmið með þessum hætti, lesum þau daglega, sjáum okkur sjálf fyrir okkur í huganum, eins og við höfum þegar náð markmiðunum, fara töfrar af stað. Það er með ólíkindum hvað gerist þegar við sjáum okkur fyrir í þeim aðstæðum eða á þeim stað sem okkur dreymir um að vera á eftir ákveðinn tíma. Um það fjalla ég síðar en þeir sem eru forvitnir geta skoðað heimasíðuna thesecret.tv.
Sumir setja sér markmið til 10 ára, 5 ára, fyrir hvert ár, hvern mánuð, viku og jafnvel dag. Það að setjast niður að kvöldi dags og skrifa upp allt sem við ætlum að gera degi síðar, jafnvel í tímaröð, er ákveðin markmiðssetning. Og það er ótrúlegt hverju er hægt að áorku með slíkri skipulagningu og markmiðssetningu.
Markmiðin geta vera ólík, stór og smá, einföld, flókin. Það er hjálplegt að skoða heimasíðuna sevenhumanneeds.com og setja sér markmið fyrir hverja af hinum sjö þörfum mannsins.
Við verðum að vera meðvituð um að það eru yfirleitt margar hindranir á leið okkar. En flestar hindranirnar erum við sjálf. Efinn um eigið ágæti, afsakanir, röng forgangsröðun og svo mætti lengi telja. Þess vegna skara svo fáir fram úr. En núna er ár afsakana að baki og frábærir tímar framundan. Við erum það sem við hugsum og borðum og ef við sinnum líkamanum og sálinni samhliða því að vera hamingjusöm og gefa af okkur, munum við eigum frábært ár.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is