Að temja sjálfan sig
Öll þekkjum við það að vilja bæta hegðan okkar, framkomu, borða hollari mat, stunda einhverja heilsurækt, setja okkur markmið og svo mætti lengi telja. Slíkar hugsanir koma og fara en því miður er framkvæmdagleðin stundum í sumarfríi nema hjá þeim sem eru sérlega agaðir og vilja ná frábærum árangri.
Ég er engin undantekning frá þessu því á hverjum degi er ég meðvitaður um að ég get gert betur og bætt mig verulega á ýmsum sviðum. Ef ég skrifa allt sem mér dettur í hug NÚNA, sem ég veit að ég get gert betur án allrar feimni, er listinn þessi:
1. Fara aldrei úr húsi nema faðma og kyssa konuna mína bless.
2. Faðma börnin á hverjum degi þannig að þau finni hversu vænt mér þykir um það.
3. Gefa börnunum tíma áður en þau fara að sofa því á kvöldin eru þau líklegust til að opna sig.
4. Heilsa fólki að fyrra bragði og horfa í augun á þeim sem ég tala við.
5. Tryggja barnapössun eitt kvöld í viku og fara í leikhús með konunni, bíó, í heimsókn eða á kaffihús.
6. Fylgja hugboði minu og hafa samband við þá sem leita á hugann.
7. Takast á við það sem ég hef ýtt frá mér lengi sökum þess að það er erfitt að höndla það.
8. Borða aldrei neitt nema vera meðvitaður um hvernig líkaminn bregst við því. Forðast óhollustu.
9. Eiga kyrrðarstund í 15-30 mínútur á dag, draga djúpt andann og hverfa inn á við.
10. Hefja vinnudaginn á því að lesa 10 blaðsíður í gefandi bók.
11. Skrifa niður á blað allt sem ég þarf að gera degi síðar og merkja við þegar því er lokið. Maður kemst yfir miklu meira með þessum hætti. Annars hættir manni til að fresta hlutum.
Í fljótu bragði lítur minn listi svona út en ef ég leggði höfuðið í bleyti yrði hann án efa þrefalt lengri. Listi annarra er líklega allt öðruvísi en þegar öllu er á botninn hvolft getum við öll bætt okkur verulega.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is