Að vinna bug á sjálfsblekkingu


Það getur verið svakalega pirrandi að vera mennskur. Í þeim skilningi að maður skuli ekki hafa meiri stjórn á gjörðum sínum og leggist oft í leti, dugleysi og sættir sig við sjálfsblekkingu. Sjálfur er ég alltaf að reyna að hætta borða sælgæti og drekka gos, en endist í skamman tíma. Óþolandi. Ekki það ég sé einhver sukkari en það er bara svo ánægjulegt að geta staðist óþarfa freistingar. Samt tel ég mig vera þokkalega agaðan. Og stundum nenni ég ekki að æfa, lesa bækur, taka til heima hjá mér og nýta daginn til fulls. Ég finn einhverjar afsakanir, ætla að byrja á morgun, eins og svo margir. Svo líða árin og allt er enn í sama farinu. Óásættanlegt og eiginlega til skammar.

Stundum dugar mér að sjá frábæra mynd, hlusta á áhugaverðan fyrirlestur eða lesa hvetjandi bók til að sparka í rassinn á sjálfum mér og breyta til hins betra. Til að mynda sá ég skemmtilega tónleika eftir Rossini í Langholtskirkju og í kjölfarið ákvað ég að að viða að mér fróðleik á hverjum einasta degi. Rossini var fyrstur, aðeins 10 línu upplýsingar um hann en allar áhugaverðar. Geymt í tölvunni í möppunni fróðleikur.

Ég heyrði tvær konur tala yndislega frönsku á kaffihúsi í morgun. Í kjölfarið gróf ég upp franska ,,lingafónið“, setti diskana tíu í bíllinn og núna hlusta ég og tala frönsku á meðan ég ek, sem er án efa í 40 mínútur á dag. Ekki slæmt að vera í 40 mínútna frönskukennslu á hverjum degi. Ég hafði reyndar góðan grunn en samt pirrandi að vera ekki ,,altalandi.“

Það þarf ekki að breyta mikið út af vananum til að viða að sér þekkingu, breyta til hins betra, þroskast á hverjum degi og læra eitthvað nýtt. Það þarf ekki meiriháttar naflaskoðun eða sálfræðitíma – þetta snýst um að framkvæma, aga sig og hætta öllum helv.... sjálfsblekkingum. Það er ekkert auðveldara en að sofna á verðinum og fara í gegnum lífið með lokuð augun og vakna upp einn góðan veðurdag – jafnvel of seint, og átta sig á því að lífið fór framhjá manni. Að allt sem mann langaði að læra og upplifa var í seilingarfjarlægð en það skorti yfirsýn og sjálfsaga til að taka sér taki. Og sjálfsblekkingin átti þar stóran hlut að máli. Maður á að lifa lífinu eins og það sé enginn morgundagurinn. Það er í raun yndislegt að vera mennskur, stöðugar áskorandi á hverjum degi!


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is