Af hverju hvíslar þögnin?
Þegar leitað er sjálfsþekkingar, er það fátt sem tekur þögninni fram. Þá er sest niður í kyrrð, hlýtt á það sem þögnin segir og leitast við að nema það. Í þögninni kemur maðurinn til dyranna eins og hann raunverulega er. Þá er hann einlægur og sannur í þögulli einvist sjálfs sín. Þá gefst honum kostur á að kynnast sjálfum sér, finna hvað hann er og hvað í honum býr, þegar stuðnings samferðamanna hans nýtur ekki við.
Sá sem ekki hefur náð miklum andlegum þroska, þekkir ótta einverunnar og varast öðru fremur þögnina. Hann finnur innra með sér, veikleikann til að standa frammi fyrir þögninni og heyra hvað hún segir við hann. Það er ef til vill ekki fjarri sanni, að enginn mælikvarði á andlegan þroska mannsins sé nær sanni en það hve miklar eða litlar mætur hann hefur á einveru og þögn.
Til þess að þekkja sjálfan sig þurfa ríkjandi hugmyndir að hverfa því að í þeim eru allar hindranir sjálfsþekkingar. Hinar huglægu hindranir eru ævinlega hinar sömu: Maðurinn heldur að hann sé eitthvað sérstakt, hann sá hið ráðandi afl, og hugurinn velur að standa vörð um það lífsviðhorf til þess að vernda sjálfan sig.
Úr tímaritinu Gangleri
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is