Bjartur hversdagsleiki?
Á svörtum janúarmorgnum í erfiðu efnahagsástandi getur verið þrautinni þyngra að ganga mót hverjum degi með gleði í hjarta. Neikvæðar fréttir óma enn í eyrum, reiði almennings undirliggjandi, hörmungar úti í heimi, myrkrið kveikir ekki ljós í sálinni og hver dagur er eins og Deja Vu eða Groundhog Day. Sömu handtökin, sama rútínan; keyra, vinna, redda, sækja, versla, elda, borga, þrífa, drífa sig, standa sig, halda haus, láta eins og ekkert hafi í skorist.
Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga, sagði skáldið og vissulega eru það orð að sönnu. Sólin lyftir sálinni, tilbreyting teiknar nýja myndir og það kviknar von í hjarta. Þrátt fyrir allt er engin ástæða til að bíða í nokkra mánuði eftir að lóan komi og kveði burt ,,snjóinn“ og leiðindin og skamma mann fyrir að sofa of mikið og vinna ekki hót. Það er ekki eftir neinu að bíða, þrátt fyrir skammdegið. Við eigum ekki að bíða eftir að ,,eitthvað annað“ eða ,,einhver annar“ lyfti okkur upp, eða drífi okkur af stað. Ábyrgðin er ÖLL okkar.
Öll viljum við tilbreytingu, hafa einhvers að hlakka til, upplifa eitthvað nýtt. Slíkt eigum við að skipuleggja í hverjum mánuði, jafnvel á hverjum degi. Mörg okkar fara ekki í leikhús af því það vantar frumkvæðið í að lyfta símtólinu og panta miða. Hvernig væri að panta sex miða og láta svo vini vita að þeir séu að fara í leikhús á tilteknum degi? Hvernig væri að vera með bók við höndina, allan daginn og grípa í hana þegar í kaffitímum og í hádeginu. Bók sem kveikir elda hið innra, hvetur okkur til dáða. Og að sjá góðar kvikmyndir er eins og að frá frí frá lífinu. Svo ekki sé talað um að ,,fara að heiman“ eitt kvöld í viku. Kveðja rútínuna og fara á kaffihús, í heimsókn eða í göngutúr. Svo ekki sé talað um að klæða sig í hlýjustu fötin, fara á afvikin stað, leggjast á Móður Jörð og horfa á himininn. Láta dáleiðast af tunglinu, leita að stjörnuhrapi, dást að fegurð heimsins.
Við getum fækkað okkar svörtu dögum með því að lifa í augnablikinu og vera sífellt lifandi, sjá ný tækifæri og bera okkur eftir þeim í hvívetna. Þrátt fyrir allt er lífið dásamlegt. Það er tilgangur með ÖLLU og við verðum að hafa VONINA að leiðarljósi. Og láta hana springa út á hverjum degi.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is