Einblínum á ljósið


Stundum skammast ég mín fyrir að vera hluti af samfélaginu, tilheyra mannskepnunni af því birtingamyndir hennar geta verið svo skelfilegar. Ef maður dettur í þann skrýtna gír að veita því helst eftirtekt sem er verulega gagnrýnivert, eins og orsakir og afleiðingar bankahrunsins, sortnar manni næstum fyrir augum og langar að tilheyra öðru tímabili, jafnvel annarri plánetu. Siðleysi einstakra aðila, ráðabrugg á bak við tjöldin, spilling, einkavinavæðing og svo mætti lengi telja ríður ekki við einteyming. Og heiðarlegir menn, sem hafa stritað alla ævi, til að sjá sér og sínum farborða ná varla upp í nefið á sér. Þeir vita ekki hvort þeir eiga að hlæja, gráta, brosa eða brjálast. Borgar heiðarleiki sig ekki? Er betra að reyna að svíkja aðra og svína á öðrum eins og kostur er, jafnvel svíkja föðurlandið eins og staðreynd er í tilvikum einstakra manna? NEI, er svarið og það vitum við öll þótt sumir telja sig geta sloppið.


Ég trúi því að allt leiti jafnvægis og að réttlætið sigri að lokum, hver sem birtingamynd þess er. Það er ekki þar með sagt að þetta lífi skelli mönnum á bak við lás og slá með tilheyrandi eftirsjá og sektarkennd en refsing þeirra mun eiga sér stað, þótt ekki verði fyrr en í næsta lífi. Lífið sér um sína. Það sleppur enginn.

   

Þegar neikvæðar raddir eru allt um lykjandi, forsíðufréttir dagblaða sláandi, ljósavakamiðlar á sömu línu er mikilvægt að einbeita sér að því sem vel er gert, er fallegt, jákvætt og uppbyggjandi. Staðreyndin er sú að HVER OG EINN ER SINNAR GÆFU SMIÐUR, og þótt ruglið í þjóðfélaginu geti sett heiðarlegustu menn á hliðina um stundarsakir er mikilvægt að fylgja sínu eigin skæra ljósi.

Það er alltaf von og víða liggja tækifærin. Menn verða að hafa hugrekki til að bera sig eftir þeim, leita inn á við og fylgja ástríðunni. Þeir sem það gera eru hólpnir því þeir munu uppskera – með einhverjum hætti.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is