Ekki kreppa hnefann


Þegar kreppir að af ýmsum ástæðum, illa árar og svartsýni er þungamiðjan í samskiptum fólks og þema fjölmiðla er mikilvægt að láta ekki villa um fyrir sér. Flestir eiga mikið undir öðrum; svo sem atvinnu, neysluvörur, leikskólapláss og svo mætti lengi telja. Á tímum, eins og við upplifum um þessar mundir, er mikilvægt að spyrja sig: Hvað er það versta sem gæti gerst?  Þegar við gerum okkur grein fyrir því kviknar ljós sem getur lýst upp okkar nánasta umhverfi og veitt okkur von um betri tíð. Kærleikur og hamingja kostar ekki neitt og er undir okkur sjálfum komin.

 

Öllum stundum, burtséð frá árferði og efnahag, er mikilvægt að losa sig við ,,eiturefni“ í líkamanum með því að borða eingöngu hollan mat og láta áfengi, tóbak og vímuefni lönd og leið.  Það er lífsnauðsynlegt að hreyfa sig daglega og síðast en ekki síst er mikilvægt að opna orkustöðvarnar. Til hvers? Jú, til þess að kveikja ljós hið innra sem færist sífellt ofar og opnar okkur nýja sýn. Hugleiðsla og djúp meðvituð öndun er lykillinn að því að virkja orkustöðvarnar. Með því að eiga stund með okkur sjálfum, í kyrrð og ró, gerum við okkur aðgengileg. Og þegar við erum aðgengileg, erum við meðvituð um að opnar dyrnar inn á við. Í djúpri hugleiðslu losnum við við efnislíkamann og andinn tekst á loft. Í kjölfarið upplifum við það sem skiptir mestu máli. Við öðlumst ný gildi og hégóminn hverfur. Og svörin sem við höfum óskað eftir árum saman, blasa við okkur. Með því að kynnast sjálfum sér upp á nýtt á þennan hátt áttum við okkur á því hvers við höfum farið á mis. En eftirsjá er ekki á dagskrá, því síður sektarkennd.

Nýtt upphaf rennur upp þegar ný gildi og kærleiksrík gildi eru höfð að leiðarljósi.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is