Erum við að reyna að kaupa okkur hamingju?
Þeir hlutir sem fólk samsamar sig við eru mismunandi eftir einstaklingum, háðir aldri, kynferði, tekjum, samfélagsstöðu, tísku, menningu umhverfisins og þar fram eftir götunum. Það sem þú samsamar þig við er allt háð innihaldi en hin ómeðvitaða hvöt til að samsama sig tengist hugarsmíð. Þetta er einn af sterkustu þáttunum í hegðun hins sjálfhverfa hugar.
Þversögnin er að það sem heldur hinu svokallaða neysluþjóðfélagi gangandi er sú staðreynd að viðleitni þín til að finna sjálfan þig með tilstyrk hluta gengur ekki upp. Sjálfsánægjan er skammvinn og þess vegna ertu stöðugt á höttunum að svipast um eftir meira, halda áfram að kaupa, halda neyslunni áfram.
… Stór hluti af lífi margra fer í þráhyggjukennt vafstur með hluti. Þetta veldur því að eitt af meinum okkar tíma er hröð fjölgun hluta. Þegar þú finnur ekki lengur það líf sem þú ert, er líklegt að þú reynir að fylla líf þitt með hlutum. Ég legg til sem andlega iðju að þú kannir samband þitt við veröld hluta með sjálfsathugun og lítir sér í lagi til hluta sem tengdir eru orðinu „minn”. Þú þarft að vera aðgætinn og heiðarlegur til að komast að raun um það hvort sjálfsmat þitt tengist hlutum sem þú átt. Vekja tilteknir hlutir óljósa hugmynd um mikilvægi eða yfirburði? Veldur skortur slíkra hluta því að þú finnur þig standa öðrum að baki sem meira eiga en þú? Minnist þú ofur hversdagslega á hluti sem þú átt eða sýnir þá öðrum til að styrkja eigin stöðu í augum annarra og efla þannig sjálfsmat þitt? Ertu gramur eða reiður eða finnst þér á einhvern hátt vegið að sjálfi þínu þegar einhver annar á meira en þú eða þegar þú missir einhvern hlut sem þú metur mikils?
Úr bókinni Ný jörð eftir Eckhart Tolle
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is