Fegurð og ferskleiki


Eitt það skemmtilegasta við lífið er að maður veit aldrei fyrirfram hvenær maður verður fyrir hughrifum, hvenær einhver blæsa manni anda í brjóst sem gerir það að verkum að maður vill breyta rétt öllum stundum.

Kvikmyndin AVATAR er ekki eingöngu tæknilega frábær með spennandi söguþræði heldur óður til náttúrunnar, óður til Móður Jarðar og lífsins alls. Þar af leiðandi ættu allir sem vilja verða betri manneskjur að sjá myndina, njóta hennar og meðtaka boðskapinn. Eflaust horfa sumir á myndin út frá tæknilegu sjónarhorni eingöngu en með því að vera opinn fyrir boðskapnum öðlast AVATAR mun dýpri merkingu. Ef ég hefði verið spurður að því að myndinni lokinni hvort ég vildi flytja samstundis á plánetuna Pandoru og vera í návist við tré lífsins og alls þess sem Pandora hefur upp á að bjóða, hefði ég ekki þurft að hugsa mig um tvisvar. Hver vill ekki vera allan sólarhringinn í fullkomnu jafnvægi við náttúruna, önnur dýr og laus við leiðindi, strit og pólitík?

Það sem vekur furðu mína er að það eru mun oftar sögupersónur í kvikmyndum, bókum eða sönglagatextar sem hreyfa við mér en fólk í lifanda lífi. Flottar fyrirmyndir eru víða, bækur sem lyfta manni upp í hæstu hæðir og lög sem hvetja mann til dáða. En hvers vegna eigum við svona fáa foringja, leiðtoga eða andlega meistara?

 Avatar er mynd sem við ættum að horfa á einu sinni á ári, í það minnsta, eða í hvert sinn sem við þurfum andlega uppörvun.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is