Freistingar


Rithöfundurinn Oscar Wilde, sem lést í París árið 1900, sagði: ,,Ég get staðist allt nema freistingar!“

Allir kannast við það að falla fyrir freistingum, jafnvel daglega því þær blasa við okkur hvert sem litið er. Við fáum okkur kaffi á kaffihúsi en crossandið er líka svaklega freistandi. Við verslum í matinn og það væri geðveikt að eiga snakk eða súkkulaði eða annað góðgæti til að narta í yfir sjónvarpinu. Steikin er svakalega gómsæt og það væri frábært að fá sér aðeins meira þótt ég sé að springa. Hvernig væri að lesa æðislega bók í kvöld.... en ég æ ég má ekki missa af enn einum þættinum af House. Og svo líða dagarnir og árin og áratugirnir og við sitjum uppi með aukakílóin, ryðgaða og stirða liði vegna hreyfingaleysis, áhugamálin fóru að hluta til i vaskinn sem og námskeiðin sem við vorum alltaf að fara að sækja.  Og stóri draumurinn var rétt innan seilingar, allan tímann. Það munaði svo litlu! En.... daglegar freistingar villtu okkur sýn.

 

Því miður eru bragðlaukarnir oftar en ekki háværari en heilbrigð skynsemi og þess vegna föllum við í freistni þegar eitthvað gómsætt er í boði. Hver og einn leggur mismunandi skilning í lífsgæði og þannig verður það alltaf. Sumir vilja hreinlega falla í allskyns freistni dag eftir dag og eru fullkomlega sáttir við það en líður hugsnalega ekkert sérlega vel -- á meðan aðrir hlusta á þarfir líkamans og taka tillit til hans hvað varðar næringu og hreyfingu.

 

Burtséð frá öllu er lífið dýrlega dásamlegt og við eigum að njóta þess í botn frá degi til dags. Þarfir okkar og langanir eru mismunandi og freistingarnar leggja fyrir okkur snöru á hverjum degi. Á slíkum augnablikum reynir á sjálfsaga, viljastyrk og síðast en ekki síst heilbrigða skynsemi.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is