Hænuskref á dag
Enn ein áramótin eru í uppsiglingu. Enn ein áskorunin um að bæta ráð sitt, gera betur en í gær og leggja af slæma siði. Oft er þörf en nú er nauðsyn. En makalaust getur það verið erfitt, jafnvel fyrir þá sem búa yfir þokkalegasta sjálfsaga. Er einhver ástæða til að bæta ráð sitt, gera betur en í gær? Vitanlega er full ástæða til þess því innst inni viljum við öll verða betri manneskjur, láta gott af okkur leiða, vera í betra formi, líða betur andlega og líkamlega og svo mætti lengi telja. Það er frábær áskorun að horfast í augu við sjálfan sig, viðurkenna veikleikana og takast á við þá. Oftar en ekki ætlar fólk sér um of á of stuttum tíma. Fólk sem hefur litla reynslu af líkamsrækt, ræður sér einkaþjálfara sem ætlar að gera kraftaverk en eftir nokkurra vikna púl er tankurinn tómur. Sem betur fer er það þó ekki algilt. Þótt ,,no pain no gain“ hljómi klisjukennt eru það orð að sönnu.
Það er um að gera að byrja breytingar með litlum skrefum, því þá er auðveldara að stækka þau stig af stigi. Það má til dæmis fækka kaffibollum dagsins um tvo, borða þrjá ávexti á dag, drekka fjögur glös af vatni, borða sig aldrei nema 70% saddan, hrósa þrisvar á dag, ganga alltaf frá óhreinum fötum, lesa að lágmarki 15 blaðsíður á dag í góðri bók, setja sér eitt nýtt markmið.
Ég þekki metnaðargjarnan mann sem tók eina armbeygju 1. janúar 2009. Hann tók tvær armbeygjur 2. janúar. Hann tók þrjár armbeygjur 3. janúar og svo koll af kolli. Fæstum þykir mál að bæta við sig einni armbeygju á dag. Það sama gilti um kviðæfingar. Bæta einni við á dag. Sama hátt má hafa um aðrar líkamsæfingar. Þetta er ekki sérlega flókið en ávinningurinn, andlega og líkamlega, er stórkostlegur.
Þorgrímur Þráinsson.
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is