Hugsum við of mikið
Stundum hugsa ég of mikið. Og líklega hugsa flestir of mikið. Hugsanir geta hrært of mikið upp í okkur en fáum við nokkuð við það ráðið? Það er erfitt að hafa stjórn á hugsunum, nema vera með meistaragráðu í hugleiðslu. Ætti maður kannski að reyna að bægja öllum hugsunum frá og lifa eingöngu í augnablikinu, hugsunarlaust? Flæða, verða eitt með núinu. Eflaust væri það æskilegast en fyrir flesta er það of krefjandi. Alls kyns hugsanir poppa upp við ólíklegustu aðstæður, burtséð frá því hvernig manni líður hverju sinni. Hver er tilgangur lífsins? Til hvers allt þetta brölt ef hver dagur er eins og deja vú? Er ég í réttu vinnunni, að umgangast rétta fólkið, gera virkilega það sem mig langar mest að gera? Til hvers hjónaband með krefjandi börnum þótt þau séu líklega mestu kennarar lífsins? Er frelsið best í heimi? Hvað er frelsi og hvernig færi ég með það ef ég væri engum háður?
Eflaust má leiða að því líkur að lífið sé að mestu leyti tilgangslaust. Við erum föst í viðjum vanans, með miklar ábyrgðir, skyldur og sjáum oft ekki út úr augum fyrir verkefnum eða skuldum. Erum við þrælar efnishyggjunnar, höfum við látið aðra afvegaleiða okkur, af hverju erum við ekki nóg sterk til að taka sjálfstæðar ákvarðanir? Tilgangslaust líf? Eflaust ögrandi og ósanngjörn fullyrðing en hvað vill maður virkilega fá út úr lífinu? Sömu athafnir dags daglega? Sitja fastur í búrinu en langa að brjótast út en þora ekki? Hverjum er maður að þóknast?
Því geta fylgt miklir ókostir að hugsa of mikið. En líka kostir því hugsanirnar ýta manni af stað til nýrra athafna, sigra, eða ósigra sem er líklega mest þroskandi. Er hugsanlega mesta syndin að sitja fastur í sama hjólfarinu áratugum saman og dreyma um annað líf en gera ekkert í því? Fyrir hvern er maður að fórna sér; makann, börnin, stór-fjölskylduna, siðareglur kirkjunnar, hinar almennur reglur og hefðir siðmenntaðs þjóðfélags sem mörgum þykja úreltar?
Það að gleyma sér í augnablikinu, ástríðunni er ein mesta gæfa lífsins. Að vera á þeim stað þar sem maður virkilega vill vera. Þá mætti draga þá ályktun að það sé synd og skömm að vinna ekki við það sem veitir manni mestu fullnægju. Og eflaust er það enn meiri synd að verða gamall og sjá eftir því sem maður aldrei gerði.
Cogito, ergo sum, sagði franski heimspekingurinn René Descartes sem var uppi á 16. öld. Það er latína og þýðir „Ég hugsa, þess vegna er ég til“. Á þessu byggði hann alla sína heimspeki. Síðustu orð Descartes voru: „Jæja sál mín, tími til að fara.“
Hugsanir eru til alls fyrst en að láta þær þvælast of mikið fyrir manni getur gjörsamlega ruglað mann í ríminu.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is