Hver er ég eiginlega?


Útdráttur úr bókinni Arfleifð Gurdjieff

Um 1915 fóru kenningar Gurdjieffs að berast frá Mið-Asíu til Evrópu um Tyrkland en samfara heimsstyrjöldinni vöknuðu miklar og áleitnar spurningar hjá Evrópubúum um tilgang lífsins. Kenningar hans hafa breytt lífi margra frá rótum.

.... Frá örófi alda hefur manninum verið sagt að hann sé sofandi og verði að vakna. En menn eru hættir að trúa þessu í bókstaflegri merkinu og taka það sem líkingamáli: en það sem fyrst þarf að gera er að taka það bókstaflega.


Í svefnástandi mannsins hagar hann sér eins og vél. Athafnir hans eru vélrænar. Í kjölfar reynslu lærir hann að bregðast við síbreytilegum aðstæðum í lífinu og minni hans tekur á sig flókið munstur. Í samræmi við það breytir hann svo ósjálfrátt, hann er með öðrum orðum stilltur inn á ákveðna hegðun. Hann er allsendis óvitandi um þetta og telur sér trú um að hann breyti meðvitað en sannleikurinn er hins vegar sá að óreiðukenndar uppákomur lífsins feykja honum stjórnlaust hingað og þangað. Það tekur hann langan tíma að viðurkenna þetta því það rýrir sjálfsálit hans. En í þessu svefnástandi dæmir hann sig til tilveru á lægra stigi en honum er ætluð, segir Gurdjieff. Ekkert af reynslu hans er í raun hans eigin: hún er blátt áfram partur af alheimslegu munstri fyrirbæraheimsins og þjónar einvörðungu hagsmunum náttúrunnar, hann er ekkert annað en háþróað dýr.

 

Gurdjieff heldur því fram að manninum séu hins vegar stig vitsmuna og vitundar sem séu þessu ástandi miklu ofar og ef honum takist að opna sig fyrir þeim þá öðlist reynsla hans raunverulega mekringu. Stundum, mitt í einhverjum önnum, verður smávægilegt atvik til að rjúfa þessi álög svo að hann ,,kemst til sjálfs sín“ eitt andartak og spyr undrandi: ,,Hvað var nú þetta? Hver er ég eiginlega? Hvað er ég eiginlega að gera hér.‘‘ En það tekur brátt enda og hann fellur aftur í svefn svo öllu vindur fram eins og áður.

 

Þessi augnablik næmari upplifunar stafa af því að maðurinn ratar óforvarendis inn í lög æðri vitundar þar sem hann á sinn guðlega tilverurétt. En þessu verður ekki náð með óskhyggju heldur aðeins fyrir áframhaldandi og undanbragðalausa viðleitni til að vakna en það kallar Gurdjieff ,,að minnast sjálfs sín‘‘. Það útheimtir stefnubreytingu, tilraun til að komast aftur á sitt upprunalega stig sem við erum búin að gleyma í álögum lífsins.


Úr tímaritinu Gangleri, haust 2008


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is