Hver er þín fötlun?


Fyrir nokkrum árum bjó drengur í Bandaríkjunum sem hafði allt til að bera til að verða frábær tennisleikari. Nema.... það vantaði á hann báða framhandleggina og annað fótlegginn fyrir neðan hné. Samt dreymdi hann um að ná glæstum árangri í tennis. Og foreldrar hans studdu hann algjörlega í þeim efnum. Þeir fóru með hann á tennismót, keyptu fyrir hann tímarit og bækur um tennis og drengurinn fylgdist grannt með útsendingum frá tennismótum í sjónvarpinu. Hann vissi allt um alla bestu tennisleikara heims.

Vitanlega fékk drengurinn gervilimi og gat farið að ganga ágætlega og nota handleggina. Með tíð og tíma fékk hann síðan betri útlimi og gat beitt þeim enn betur. Einhverju sinni þegar hann var staddur með foreldrum sínum í íþróttavöruverslun sáu þau að það voru til sérstakir tennisspaðar fyrir gervihandleggi. Fjárfest var í nokkrum tennisspöðum og fjölda bolta og um leið og strákurinn kom heim til sín byrjaði hann að slá boltum í bílskúrshurðina. Vinir hans fóru með hann út á völl og æfðu með honum eins oft og hann vildi. Strákurinn var sem sagt vakinn og sofinn yfir því að láta draum sinn rætast.

 

Þegar strákurinn var á síðasta ári í menntaskóla tók hann þátt í 20 mótum innan skólans og sigraði á 16 þeirra. Þetta vakti svo mikla athygli að sjónvarpsstjóri hringdi í skólastjórann og spurði hvort hann mætti senda fréttakonu í skólann til að taka viðtal við strákinn. Skólastjóranum þótti upplagt að fá sjónvarpsstöðina á útskriftarhátíðina.

 

Á hátíðinni var strákurinn kallaður upp á svið, til að fá veita verðlaunum viðtöku fyrir frábæran árangur í tennis og sömuleiðis frábæran árangur í námi. Sjónvarpskonan elti hann upp á svið og spurði hann fyrir framan fleiri þúsund nemendur:  ,,Hvernig stendur á því að þú, svona fatlaður eins og við sjáum og vitum að þú ert, nærð svona frábærum árangri í tennis?“

 

Þá leit strákurinn  brosandi yfir salinn. Hann þekkti vitanlega alla nemendur. Síðan leit hann á sjónvarpsskonuna og sagði: ,,Sko, munurinn á mér og flestum hérna inni er sá, að þið sjáið mína fötlun,“ sagði hann og lyfti upp gervihandleggjunum. ,,En ég sé ekki ykkar fötlun,“ sagði hann og benti á höfuðið á sér.“


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is