Innri líkaminn
Ef þú ert ókunnugur vitund um „innri líkamann” skaltu loka augunum andartak og athuga hvort það sé líf inni í höndunum þínum. Ekki spyrja huga þinn. Hann segir bara: „Ég finn ekki neitt.” Sennilega segir hann líka: „Láttu mig fá eitthvað áhugaverðara að hugsa um.”
Í stað þess að spyrja huga þinn snýrðu þér þess vegna beint að höndunum. Með þessu á ég við að skynja hina óljósu lífskennd í þeim. Hún er þarna. Þú þarft bara að beina athygli þinni þangað til að taka eftir henni. Þú finnur ef til vill svolítinn fiðring fyrst í stað en síðan skynjarðu orku eða líf. Ef þú beinir athygli að höndunum nokkra stund magnast þessi lífskennd. Sumir þurfa ekki einu sinni að loka augunum. Þeir geta skynjað „innri hendur” sínar um leið og þeir lesa þetta. Síðan skaltu standa á fætur, halda athyglinni þar í eina eða tvær mínútur og byrja síðan að skynja hendur þínar og fætur samtímis. Síðan dregurðu aðra hluta líkamans inn í dæmið – fótleggi, handleggi, kvið, brjóst og svo framvegis – þangað til þú skynjar innri líkamann sem líf í allri heildinni.
Það sem ég kalla „innri líkamann” er í rauninni ekki líkaminn lengur heldur lífsorka, brúin milli forms og formleysis. Gerðu það að venju þinni að skynja innri líkamann eins oft og þú getur. Eftir dálítinn tíma þarftu ekki að loka augunum til þess að skynja þetta. Athugaðu til dæmis hvort þú skynjir innri líkamann meðan þú ert að hlusta á einhvern. Þetta er næstum því eins og þversögn: Þegar þú ert í snertingu við innri líkamann ertu ekki samsamaður við huga þinn. Það er að segja, þú ert ekki lengur samsamaður við form heldur þokastu frá samsömun við form að formleysi, sem við getum líka kallað verund. Þetta er innsta sérstæði þitt. Líkamsvitund tengir þig ekki aðeins við líðandi stund, hún er dyr út úr því fangelsi sem sjálfið er. Þetta styrkir líka ónæmiskerfið og hæfileika líkamans til að lækna sig.
Úr bókinni Ný jörð eftir Eckhart Tolle
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is