Jafnvægi líkama og sálar


Það er kúnst að læra af samfélaginu og þeim sem hafa eitthvað vitrænt til málanna að leggja. Lærimeistarar þjóðarinnar eru margir en við upplifum þá á mismunandi hátt. Sumum tökum við eftir, leggjum við hlustir og tileinkum okkur speki þeirra og visku. Aðrir fara fram hjá okkur, líklega vegna þess að við erum stödd á öðrum stað, höfum ekki þroska til að finna samhljóminn, sjá tilganginn.

 

Einn er sá maður sem fær óskipta athygli í kastljósi fjölmiðlanna fyrir frábæran árangur í íþróttum og ekki síst fyrir þá heimspeki sem hann stendur fyrir. Þetta er Ólafur Stefánsson, leiðtogi handboltalandsliðsins. Það sem hann hefur að segja fangar ekki athygli allra en þeir sem lifa lífinu með opin augun og sjá hlutina í stóru samhengi fagna þegar Ólafur deilir lífsspeki sinni með okkur.

 

Í nýlega viðtali sagði hann meðal annars: ,,Um tvítugt er maður einföld sál og gerir það sem maður telur sig þurfa að gera og mælir árangurinn í sigrum. En ef maður gefur sér tíma til að lesa þá verða önnur gildi mikilvæg og þá öðlast íþróttin mýkt. Núna snýst handboltinn í mínum huga um að finna jafnvægi í líkama og sál.“

 

Og fyrirliðinn heldur áfram: ,,Við Íslendingar látum margt trufla okkur en ef við gætum þess að fara út í náttúruna og slaka á er Ísland besti staðurinn í heiminum. Það er dýrmætt að geta farið um landið sitt, sofið á jöklinum sínum eða farið út á bát að veiða. Það er mikil guðs gjöf að hafa lent einmitt hér. Stundum finnst okkur grasið hinum megin vera grænna og það virðist grænna af því enginn bítur í það.“

 

,,Við þurfum ekki að breyta neinu í lífi okkar hvort sem Guð er til eða ekki. Ég vil gefa Guði frí, leyfa honum að slaka á. Við berum ábyrgð á eigin lífi og gefum öðrum manneskjum fordæmi með lífi okkar. Þannig, vonandi, vex heimurinn og batnar.“

 

,,Ef það sem maður stefni að er fyrir það ytra, ef það kemur ekki innan frá og er ekki hreint og tært, þá tapar það gildi sínu.“

 

Spurður út í framtíðina sagði Ólafur: ,,Ég sé ekki framtíðina en ef maður dregur hluti að sér af virkilegum krafti, ef maður trúir á gildi þess sem maður vill og nýtir jákvæðnina innra með sér þá getur draumurinn orðið að veruleika. En maður verður að vita hvað maður vill og fara þá leið sem manni finnst réttust.“


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is