Jóga - allra meina bót


Þótt ég sjái ekki langt inn í framtíðina get ég ímyndað mér að jóga sé sú íþróttagrein sem mun vaxa hvað mest á næstu áratugum.

Þeir sem eru svo heppnir að lenda hjá góðum jógakennara ánetjast yfirleitt fyrir lífstíð.

Að stunda jóga, sem felur í sér hugleiðslu, notalegar (viðráðanlegar) æfingar og teygjur, er eins og að fá frí frá lífinu, sem verður sífellt eftirsóknarverðara.

Flest okkar eru á hlaupum daginn út og inn þótt við þráum að eiga griðarstað þar sem við getum horfið inn í þögnina og jafnvel reynt örlítið á líkamann.

 

Margs konar jóga er í boði. Sumir kjósa power-jóga sem sameinar erfiðar líkamsæfingar og teygjur en aðrir vilja algjörlega aðskilja líkamsrækt annars vegar og teygjur og hugleiðslu hins vegar. Ég tilheyri þeim hópi. Mér þykir frábært að hlaupa og lyfta lóðum nokkrum sinnum í viku en hvíldin frá því er jóga – þar sem unnið er á allt öðrum nótum. Ég þekki það vel að stífna allur upp og stirðna í líkamsræktinni og telja mér síðan trú um að ég hafi ekki tíma til að teygja almennilega í lok æfingar. Þess vegna ákvað ég að fá mér einkatíma í jóga í heilan mánuð. Það er varla hægt að lýsa þeirri vellíðan sem sú ástundun leiddi af sér.

 

Í stuttu máli myndi ég lýsa því þannig að það myndaðist allt annað flæði í líkamanum við reglulega ástundun jóga. Ég fann hvernig blóðflæðið jókst, liðleikinn varð meiri og almenn vellíðan lék um kroppinn allan daginn. Og ég var í mun betra jafnvægi, andlega og líkamlega. Í jóga lærir maður að anda meðvitað niður í kviðarholið sem skiptir sköpum fyrir almenna vellíðan og daglega meðvitund. Flest okkar anda eingöngu niður í brjóstholið sem heldur okkur á lífi en opnar samt ekki nógu margar dyr að því völundarhúsi sem við erum. Rétt öndun getur gert kraftaverk.

 

Það er með jóga eins og allt annað; það sem hentar mér, hæfir ef til vill ekki öðrum. Ég hvet ykkur því til að finna ykkar jóga, hvort sem það er hratt, hægt, erfitt eða auðvelt.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is