Komum sjálfum okkur á óvart


Lífið er ein samfellt rútína og ávani. Við gerum sömu hluti aftur og aftur, hvort sem okkur líkar betur eða og verr en oftar en ekki viljum við brjóta okkur leið út úr viðjum vanans. Skólarnir byrja með tilheyrandi brölti barnanna. Óhreini þvotturinn fer ekki frá okkur, matarinnkaup þola enga bið, heimalærdómur getur tekið á taugarnir, fréttir eru ómissandi, ryk safnast upp úti í horni ef ekkert er að gert. Við lítum stundum í kringum okkur, hristum höfuðið og vildum óska að við værum komin til Afríku á augabragði. Eingöngu tilbreytingarinnar vegna. Eða til að fá frí frá lífinu, frí frá okkur sjálfum.


Það er nánast lífsnauðsnlegt að fara út fyrir rammann annað slagið, brjóta upp munstrið sem við höfum tamið okkur og er að vissu leyti gott en að sum leyti slæmt.


Hvað með að sleppa tíufréttum í sjónvarpinu annað slagið, klæða sig í hlý föt, fara rétt út fyrir bæjarmörkin, leggjast á bakið úti í náttúrunni og horfa á stjörnurnar, tunglið. Svífa á braut í hálftíma. Það hreinsar hugann. Opnar leið inn í vitundina sem er ævintýri út af fyrir sig.


Eða labba að næstu fjöru, fara út skóm og sokkum, bretta upp buxnaskálmarnir og láta öldurnar sleikja á sér tærnar, leika um ökklana. Þannig finnum við fyrir andardrætti jarðar. Af hverju ekki að leggja diska og glös á stofugólfið eitt kvöldið, koma krökkunum á óvart og borða þar.


Svo væri fróðlegt að láta leiða sig með lokuð augun í 20 mínútur í hverfinu, til þess eins að aðgæta hvort við upplifum umhverfi okkar og hljóð á annan hátt með lokuð augun.


Það má líka prófa að brjóta egg á höfði sonar síns eða dóttur, til að kanna viðbrögðin. Eða sofa úti á svölum í góðum svefnpoka á fallegri haustnótt.


Lífið er of stutt til að festast í viðjum vanans þegar okkur langar virkilega út fyrir rammann. Tökum af skarið. Þetta er okkar líf og þegar öllu er á botninn hvolft, berum við ein og sér fullkomna ábyrgð.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is