Kostar ekki krónu


Maður nokkur var orðinn frekar ósáttur við sjálfan sig. Honum fannst hann orðinn þungur í vinnunni, ófélagslyndur og hafði ríka tilhneigingu til að loka sig af. Hann skildi ekki hvers konar þyngsli og leiðindi voru að hellast yfir hann. Hann var í góðu starfi, skorti ekki fjármagn og átti hamingjusama fjölskyldu. Maðurinn fór að telja sér trú um að þunglyndi væri hugsanlega ættgengt og það pirraði hann að vera orðinn slæm fyrirmynd heima fyrir. Einn góðan veðurdag var hann orðinn svo þreyttur á sjálfum sér að hann sló sig utan undir og ákvað að rífa sig upp úr ládeyðunni. Hann vissi að enginn annar myndi gera það.


Hann mætti í vinnuna næsta dag með þrjár krónur í hægri buxnavasanum. Og markmið hans yfir daginn var að færa krónurnar yfir í vinstri vasann. Ekki flókið – en hann mátti ekki færa krónu fyrr en hann hafði hrósað einhverjum. Maðurinn hrósaði þremur yfir daginn og eins og hann vissi skapaði það ómælda ánægju, ekki bara hjá honum heldur líka þeim sem hann hrósaði og meðal þeirra sem urðu vitni að því. Eftir nokkra daga var hrósið orðið honum svo eðlislægt að hann þurfti ekki að færa neinar krónur milli vasa.


Staðreyndin er sú að ef við týnum gleðinni (sem við þekkjum öll) og okkur langar að leggjast í kör, sem skilar engu, er eina leiðin að standa með sjálfum sér, treysta á sig og rífa sig upp. Það er mesti sigurinn.


Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is