Leyndarmálið


Hvað áttu Abraham Lincoln, Tomas Edison, Winston Churchill, Martin Luther King og Albert Einstein sameiginlegt? Þeir vissu um leyndarmálið og unnu og lifðu samkvæmt því. Um þetta leyndarmál er fjallað í myndinni The Secret sem hefur hreyft mest allra mynda við mér. Ég tímdi varla að fara að sofa eftir að hafa horft á hana því ég hlakkaði svo til að halda áfram að skapa mína eigin frábæru nútíð. Og það er ekki annað hægt en að koma myndinni á framfæri.


Innri gleði er lykilatriði í leyndarmálinu, að vera hamingjusamur, ástfanginn, gefandi, frjáls og bera sig eftir draumum sínum alla daga. Í stuttu máli má segja að The Secret sé ,,sjónræn” markmiðssetning með þremur lykilatriðum. Við verðum að biðja um það sem við viljum upplifa eða eignast, trúa að það muni gerast og þiggja þegar ,,gjafirnar” koma. Og þakka fyrir þær. Alheimurinn er til staðar fyrir okkur og óskirnar rætast, ef við berum okkur eftir þeim.


Á hvaða sviði (vettvangi) líður þér best þannig að tíminn stendur í stað og þú þarft varla að borða eða hvílast? Á því sviði áttu að vera því þar nýtirðu hæfileika þína til fullnustu. Treystu þeirri hugmynd, sem þú færð, og ert sannfærður um að skipti sköpum fyrir þig. Láttu hana verða að veruleika. Ekki láta óttann stöðva þig.


Ekki pirra þig á því sem þú átt ekki. Ekki óska þess að losna við yfirdráttinn. Ekki bölva reikningum. Óskaðu þess að eignast peninga. Taktu eftir því sem þú laðast að og óskaðu þér, fylgdu því eftir jafnvel þótt þú sjáir ekki endapunktinn. Ökumaður sem ekur í myrkri frá Reykjavík til Akureyrar sér aldrei nema um 60 metra fram fyrir sig. Samt kemst hann á leiðarenda. Hann treystir, nýtur ferðalagsins og veit hver áfangastaðurinn er. Tilfinningin fyrir lokatakmarkinu skiptir máli.


Vissir þú að aðeins 1% mannkynsins þénar 96% þeirra tekna sem eru í boði? Hvað er það fólk að gera sem hin 96% gera ekki? Lokaðu augunum einu sinni á dag á rólegum stað og sjáðu það fyrir þér sem þig langar í. Upplifðu það, finndu fyrir því. Ef það er bíll, hvernig er að aka honum? Hvaða tilfinningar framkallar krafturinn? Ef það er hús, hvar er það? Hvernig er það? Hver er tilfinningin að ganga inn í það? Ef það er gjafmildi, hvað þarftu að gera? Þeir sem temja sér að lifa samkvæmt leyndarmálinu upplifa töfra lífsins á hverjum degi.


The Secret fjallar um lögmál aðdráttaraflsins. Ef þú ert á leið í miðbæinn áttu að sjá fyrir þér autt bílastæði þar sem þér hentar best. Alheimurinn kemur þér á óvart þegar þú kemur á svæðið.


The Secret fjallar um ótakmarkaða möguleika hugaraflsins hvað varðar það að lækna sjálfan sig, breyta sjálfum sér til hins betra, í stað þess að ráðskast með aðra. Og myndin sýnir fram á að neikvæðni elur af sér neikvæðni. Móðir Teresa tók aldrei þátt í að mótmæla stríði heldur stuðlaði hún að friði. Við eigum að setja alla hugsun í það sem við viljum, ekki það sem við viljum ekki. Orkan flæðir að því sem við einbeitum okkur. Við verðum það sem við hugsum um og sköpum okkar eigin örlög.


The Secret er mynd sem allir verða að sjá, eiga og helst horfa á einu sinni í mánuði.

Slóðin er www.thesecret.tv og hægt er að panta myndina af heimasíðunni.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is