Lifandi næring


,,Látið fæði vera lækningu ykkar og lækninguna vera fæðið.” Þessi fleygu orð mælti Hippocrates 440 árum fyrir Krist en Hippocrates er talinn faðir læknisfræðinnar. Um 1200 árum síðar sagði Thomas Edison: ,,Læknir framtíðarinnar mun ekki vísa á nein lyf heldur vekja áhuga sjúklinga á að fyrirbyggja sjúkóma með því að hlúa að líkama okkar með réttri fæðu.”

 

Burtséð frá því hversu klisjukennt það hljómar þá erum við það sem við  borðum. Getur verið að rós springi út og blómstri ef við nærum hana á diet kók, snakki og sælgæti? Hún myndi án efa visna og deyja innan tíðar. Það sama hendir okkur, en á lengri tíma. Þau okkar sem grípa í ,,sukkfæði” og ,,dauðan” mat daglega eiga hreinlega á hættu að visna langt um aldur fram. Það fæði sem náttúran ætlar okkur er grænmeti, ávextir og fræ; lifandi, orkumikil og heilsusamleg fæða. Öflugustu dýr jarðar, allt frá górillu til fíla eru grænmetisætur.

 

Dr. Ann Wigmore, er upphafsmanneskja hráfæðis (lifandi næring) en hún lést í bruna árið 1994, 85 ára gömul. Þegar hún greindist með krabbamein um fimmtugt og henni var tilkynnt að hún ætti eftir 6 mánuði ólifaða sagði hún skilið við óhamingjusamt hjónaband og streituvaldandi líf. Hún sneri sér alfarið að náttúrunni, innbyrgði allt sem var grænt og hrátt. Hann blandaði því saman við fræ og korn sem hún spíraði. Fræ og hnetur þarf að ,,vekja upp” með því að leggja það í bleyti og láta það spýra. Þá getur næringargildið 300faldast.

 

Eftir 1 ár hafði Ann Wigmore náð fullum bata og hún var aftur komin með brúnt hár. Hún stundað mikla rannsóknarvinnu og fann upp hveitigrasið og ,,the living food lifestyle” sem leiddi til þess að hún opnaði fyrsta heildræna heilsusetrið í Boston árið 1963. Dr. Ann Wigmore fékk ,,Women of the decade award” fyrir hugmyndir sínar á sviði krabbameins og meltingasjúkdóma á tímabilinu 1970-1980.

 

Ensímin eru það sem málið snýst um því þau eru lífsorkan í okkur. Eldaður matur hefur engin ensím og ekkert súrefni því við 40 gráður byrja ensímin að fjara út. Og við 48 gráður eru þau horfin. Ef við fáum engin ensím úr fæðunni göngum við í rólegum á ensímforða líkamans og þá hefst hrörnunin. Ef við gróðursetjum eplakjarna fáum við eplatré. En soðinn eplakjarni í mold skilar engu. Þannig er lífsorkan. Eldaður matur getur ekki skapað líf.

 

Rannsóknir á simpansa hafa leitt í ljós að við erum með 99,4% sömu erfðaefni. 50% af mataræði apans eru ávextir. Allt sem er grænt (ásamt blómum) er 30% og restin er kjarni úr trjám og plöntum.

 

Otto Warburg fékk Nóbelsverðlaunin fyrir 76 árum fyrir rannsóknir sem sýndu að ástæða krabbameins væri að stærstum hluta vegna ójafnvægis á sýrustigi líkamans. Flestir eru of súrir í stað þess að vera basískir. Hvers vegna hefur lítið heyrst um þetta síðustu áratugina? Og hvers vegna segja sumir læknar við krabbameinssjúklinga að mataræði skipti engu máli. Sem dæmi má nefna þá eru Parmesan-ostur og svínakjöt með mínus ph-gildi en spínat með plús ph-gildi. Þá geta agúrka og vatnsmelóna unnið á móti súru stigi nautakjöts. Stress og óhamingja hækka sýrustig en andlegt jafnvægi heldur líkamanum basískum.

 

Flestir borða ALLAN mat, sittlítið af hverju, þótt víða sé að finna öfgar í báðar áttir. Hófsemi er lykilorðið og það að vera meðvitaður. Fólk á ekki alltaf að eltast við duttlunga bragðlaukanna heldur ígrunda hvað líkamanum er fyrir bestu. Það er ágætist regla að borða sig aldrei nema um 70% saddan og borða litlar máltíðir oft á dag í stað þess að yfirfylla líkamann tvisvar á dag. Og allir vita að vatnsdrykkja er lífsnauðsynleg. Vatn er hreinsandi, svalandi og nærandi og alltaf innan seilingar.

 

En það er eins með mataræðið og margt annað þegar kemur að lífsstílsbreytingum, þær krefjast sjálfsaga og viljastyrks. Það tekur ekki nema tvær til þrjár vikur að venja sig á góða siði, jafnvel þótt maður hafi ástundað ósiði árum saman. En léleg næring eyðir líkamlegri og andlegri orku. Það er stórmerkilegt að finna hvernig líkaminn gleðst yfir hollum og léttum mat. Sálin fer að syngja.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is