Líkamsrækt hugans
Hvort sem fólk ferðast innanlands eða utan grípur það oftar en ekki með sér bók til að lesa í fríinu. Kiljur rjúka út á Keflavíkurflugvelli og sífellt fleiri taka góða bók fram yfir DVD myndir og aðra afþreyingu. Sumir vilja meina að bóklestur sé líkamsrækt hugans. Það að lesa góða bók er eins og að fara í afslappað ferðalag. Maður lætur sig svífa á vit ævintýranna, yfir í annan heim, setur sig í spor sögupersóna og lifir sig inn í framvindu mála, grætur, hlær eða hristir hausinn. Lestur er frábær leið til að kúpla sig út frá hversdagleikanum.
Sumir lesa aldrei, segjast ekki hafa tíma til þess. Aðrir hafa tamið sér að vera með góða bók á skrifborðinu í vinnunni og lesa 10 blaðsíður áður en þeir byrja að vinna. Það tekur hámark 10 mínútur og þeir ná að lesa eina bók á mánuði. Ég þekki fólk sem er alltaf með bók við hendina, les í strætó, á biðstofum, í kaffipásum og matarhléum. Öllu má ofgera en bóklestur eykur orðaforða, víðsýni, málnotkun og örvar ímyndunaraflið. Fyrir utan hversu skemmtilegt það er að vera viðræðuhæfur um bókmenntir og geta ráðlagt öðrum.
Ég gæti lesið mun meira en raun ber vitni og hef enga afsökun. ,,To be a writer, you have to be a reader”. Ég lauk nýlega við skemmtilega og vel skrifaða bók eftir Huldar Breiðfjörð, Góðir Íslendingar, sem er reynslusaga hans af því að aka í kringum landið og kynnast menningu ólíkra staða. Ekki verra að fá sneið frá höfundinum í bókinni! Þetta er fyrsta verk Huldars og var það tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á sínum tíma.
Þar á undan lauk ég við eina bestu bók sem ég lesið um ævina; Skuggi vindsins eftir Spánverjann Carlos Ruiz Zafón í meistaralegri þýðingu Tómasar R. Einarssonar. Sagan er einstaklega grípandi og persónurnar lifna við á hverri síðu. Ég bíð spenntur eftir bíómyndinni! Ég er enginn sérstakur krimmaaðdándi og hef því ekki enn dottið niður í Yrsu, Arnald eða Ævar en sumir lesa helst ekkert annað en slíka afþreyingu sem er gott og vel.
Á milli góðra skáldsagna er gott að lesa bækur sem hvetja okkur til að ná hámarksárangri í lífinu og taka af skarið í stað þess að bíða eftir að hamingjan sæki okkur heim. Þær sem hafa heillað mig á þessum vettvangi eru Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn, Think and grow rich eftir Napoleon Hill, Hámarksárangur eftir Brian Tracy og Þú ert það sem þú hugsar, eftir Guðjón Bergmann. Og ekki má gleyma hjóðbókunum til að hlusta á í bílnum og nýta tímann til hins ítrasta.
Til allrar hamingju erum við jafn ólík og við erum mörg og þess vegna selst ekki ein og sama bókin í 100.000 þúsund eintökum á Íslandi. Árlega kemur út ógrynni frábærra bóka eftir íslenska höfunda og því er um að gera að styðja íslenskt og kynnast ólíkum verkum. Bóklestur er allra meina bót!
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is