Litlu kraftaverkin


Alveg er það með ólíkindum hvað maður getur verið pirraður út í sjálfan sig fyrir að geta ekki sparkað duglega í rassinn á sjálfum sér þegar maður á það skilið. Og af hverju á maður það skilið? Jú, vegna þess að agaleysið er við stjórn og þrátt fyrir sterkan vilja getur verið skelfilega erfitt að rífa sig upp úr viðjum vanans. Öll erum við líklega föst í rútínu dagsins, hver sem hún er en við þurfum víst að vakna, vekja börn, gefa þeim að borða, koma þeim í skólann, fara í vinnuna, fylgjast með kreppunni, versla í matinn, reyna að fara á æfingu, elda, vaska upp, gleyma sér fyrir framan sjónvarpið, þrýsta börnunum í rúmið og skríða svo sjálfur upp í undir miðnætti úrvinda – út af litlu sem engu, jafnvel bara áhyggjum eða óþarfa stressi.

 

Eins og þetta getur nú verið ágæt rútína, hvað mann langur nú til að slíta frá henni með reglulegu millibili. Öðlast frelsi. Viljinn er fyrir hendi en aginn óbeislaður. Svo líða vikur, mánuðir, ár og ef maður þorir að líta til baka og vera heiðarlegur við sjálfan sig kann maður að spyrja: ,,Hvað er langt síðan ég ætlaði að breyta til og hætta því sem fer illa með mig?“ Eftirsjáin fer illa með sálina en það er aldrei of seint að breyta til. Og það þarf ekki kraftaverk til að breyta okkur til hins betra, fá meira út úr deginum. Að vakna 20 mínútum fyrr en venjulega og hugleiða tengir okkur við innri fjársjóð sem verður ríkulegri með degi hverjum. Að setja hollt nesti í poka og taka með í vinnuna, til að sleppa bakarísferðum, gleður líkamann verulega. Að hlusta á hljóðsnældu í bílnum og komast þannig yfir nokkrar bækur á mánuði er snilld í stað þess að láta síbyljuna bræða heilann. Að faðma börnin í stað þess að skamma þau er meira en lítið gefandi og árangursríkt. Að fara í heilsusamlegan göngutúr á kvöldin í stað þess að glápa frá sér allt vit nærir sálina. Svo ekki sé talað um að sækja áhugavert námskeið. Og svo mætti lengi telja. Þetta er allt í okkar höndum, ef viljinn og sjálfsaginn eru fyrir hendi.

Við megum ekki láta lífið fjara út.

 

Þorgrímur Þráinsson

Andi ehf.   |   Tunguvegi 12   |   108 Reykjavík   |   Sími: 661 4000   |   Netfang: andi@andi.is