Ljósið í augum barnanna
,,Austurstræti, ys og læti, fólk á hlaupum, í innkaupum.“ Svona söng Laddi hér um árið og mætti vel heimfæra textann yfir á ys og þys jólanna. Oftar en ekki látum við utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á okkur. Auglýsingar dynja í eyrum og okkur finnst við vera að missa af einhverju. Kaupæði rennur á suma, tíminn er knappur, vinnan slítur í sundur daginn, allir verða að fá eitthvað fallegt, annað en kerti og spil. Kortin hitna, það hitnar í kolunum, pakkar hrannast upp, nýju fötin, jólasteikin í ofninum. Við setjumst niður á aðfangadagskvöld, örþreytt eftir ,,ys og læti“ jólamánaðarins og bíðum eftir gjöfum sem hafa tilfinningalegt gildi, tímabundið. Okkur skortir ekkert en samt hrannast upp hlutir og bækur og styttur og myndir og leikir og leikföng og föt og fleira. Þörfum okkar er fullnægt en sálin sveltur í sumum tilfellum.
Við horfðum á jólaskrautið og jólaljósin en höfum í sumum tilfellum gleymt að sjá ljósið í augum barna okkar um hátíðirnar. Það er svo margt sem glepur og við erum hvíldinni fegin en börnin þurfa mest á okkur að halda. Þau vilja ró og næði, samverustundir, snertingu, hrós og hitta frændfólk, ömmu og afa.
,,Gleymum ekki guði, gjafir, frelsi og frið. Þrautir raunir náungans, víst koma okkur við.“ Þetta söng Pálmi Gunnarsson svo listavel og það eru orð að sönnu. Við eigum að gefa af okkur og vera kærleiksrík, það er hinn eini sanni jólaandi.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is