Nudd er frí frá lífinu
Ég þekki fjölda fólks sem er alltaf á leiðinni í nudd. Ef það heldur áfram að vera alltaf á leiðinni er það að missa af unaði sem allir ættu að upplifa í það minnsta mánaðarlega. Vissulega veltur unaðurinn á því um hvers konar nudd er að ræða og hver nuddar, en þeir sem gera kröfur og þekkja unaðssemdir þess að láta strjúka á sér kroppinn eru fljótir að velja sér rétta nuddarann. Eða réttu nuddarana. Sjálfur fer ég í nudd tvisvar í mánuði. Annars vegar er um nokkurs konar íþróttanudd að ræða, þokkalega fast og ákveðið, eins og ég vil hafa það og hins vegar fer ég til nuddara sem strýkur laust og sendir mig inn i annan heim. Og viðkomandi sér myndir úr öðrum heimi sem skipta máli varðandi framtíðina. Hvorutveggja er dásamlegt.
Til allrar hamingju stunda sífellt fleiri líkamsrækt og til allrar hamingju fara sífellt fleiri í nudd. Það er miklu meira en allra meina bót. Í mínum huga er gott nudd eins og nauðsynlegt frí frá lífinu. Að leggjast á bekk og láta fara um sig mjúkum eða hörðum höndum er ólýsanlega dásamlegt fyrir sál og líkama. Aðalmálið er að kunna að slaka á, treysta og njóta.
Streita, vöðvabólgur, álagsmeiðsli, höfuðverkur og fleiri kvillar eru fylgifiskar hraða nútímans þar sem flestir eru í kapphlaup við tímann. Fólk segist ekki hafa tíma til að slaka á – en þetta sama fólk horfir hugsanlega á sjónvarpið í 2-3 klukkutíma á dag. Líklega er þetta spurning um forgangsröðun.
Það er fátt notalegra en að fara í Laugar, njóta sín í baðstofunni, fá gott nudd og fara svo aftur í baðstofuna. Þeir sem komast á bragðið ánetjast og festa sér tíma í nuddi mánaðarlega, í það minnsta.
Þorgrímur Þráinsson
Andi ehf. | Tunguvegi 12 | 108 Reykjavík | Sími: 661 4000 | Netfang: andi@andi.is